Um okkur

Selasetur Íslands
Strandgata 1 og Höfðabraut 6
Sími:   +354 451 2345
info[hja]selasetur.is  /  info[hja]sealtravel.is

Selasetur Íslands er fræðslusafn, upplýsingamiðstöð, rannsóknarsetur og ferðaskrifstofan Seal Travel. Selasetrið er fræðslusafn fyrir almenning og ferðamenn um líffræði og hegðun sela við Ísland.  Auk þess að vera upplýsingamiðstöð Húnaþings vestra.

Selasetur Íslands var stofnað formlega þann 29. apríl 2005 af heimamönnum með það að markmiði að standa að eflingu náttúrutengdrar ferðaþjónustu í Húnaþingi vestra, vinna að eflingu selaskoðunar á svæðinu og standa fyrir fjölbreyttum rannsóknum, fræðslu og upplýsingamiðlun um seli við Ísland.  Selasetrið hefur verið frá upphafi rekið í samfélagsþágu og er óhagnaðardrifið.

Stofnfélagar voru 74 og stofnfé alls 3.350.000 kr.

Fyrsta stjórn Selaseturs Íslands ehf (frá vinstri):

Fyrsta stjórn Selaseturs

  • Guðlaug Sigurðardóttir bóndi, Bergstöðum, Vatnsnesi
  • Sigrún Valdimarsdóttir ferðaþjónustubóndi, Dæli, Víðidal
  • Jóhann Albertsson ferðaþjónustubóndi, Gauksmýri, Línakrardal
  • Guðmundur Jóhannesson, stjórnarformaður, bílasmiður á Hvammstanga
  • Jóhannes Erlendsson, bílasali, Hvammstanga

Selasetrið opnaði sýningu og upplýsingamiðstöðina þann 26. júní 2006 í gömlu verslunarhúsnæði Sigurðar Pálmasonar að Brekkugötu 2.  Heiðursgestir opnunarhátíðarinnar voru Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra og Sturla Böðvarsson samgönguráðherra sem opnaði formlega Selasetrið.

Um 300 manns mættu á opnunina
Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra opnar formlega Selasetur Íslands

Selatalningarverkefnið “Selatalningin mikla” á Vatnsnesi og Heggstaðanesi í Húnaþingi vestra hófst árið 2007.

Árið 2007 bættust við sjö gripir í safnið eftir hann Guðjón Kristinsson, sem voru sérstaklega hugsaðir til afþreyingar fyrir yngslu gesti setursins; 4 útskornir selir, 1 útskorinn sjávarvættur, 1 útskorinn tröllkarl og lítill trébátur.

Árið 2012 flutti Selasetrið yfir annað húsnæði við höfnina, í kjallara á Strandgötu 1 (í gamla gærukjallarann). Stöðugt er unnið að því að bæta fræðslu sýninganna og efla þjónustu upplýsingamiðstöðvarinnar.  Fræðsluaðstaðan var bætt töluvert á vormánuðum 2013, þar á meðal má nefna þýðingar á fræðsluskiltum fyrir börn, skynfærum sela gerð góð skil í máli og myndum, uppsetning beinagrinda o.fl. Eins var móttakan stækkuð verulega, sótt um veitingarleyfi, ásamt stærri minjagripasölu.

Meginrannsóknir Selaseturs eru á selastofnun við Ísland. Meðal annars snúa rannsóknir að vöktun á stofnstærð útsels og landsels við Ísland, fæðuval þeirra og atferli.  Selasetrið gerði m.a. samning við Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið árið 2013 sem hafði það að markmiði að stuðla að auknum rannsóknum á selum við Ísland. Þessar talningar á landselum er mjög mikilvægur þáttur í vöktun NAMMCO (Norður- Atlantshafs sjávarspendýraráðsins) á stofnstærð sela við Norður-Atlantshafið.

Selasetur Íslands

Á Selasetrinu er búið að standsetja rannsóknaraðstöðu í samvinnu við Hafrannsóknarstofnun og þar er upplýsingamiðstöð héraðsins og móttaka ferðamanna.

Á hverju ári eru gerðar rannsóknir á selum á Heggstaðanesi, Vatnsnesi  og víðar um Ísland í góðri samvinnu við heimamenn og landeigendur. Þar hafa starfsmenn og nemar Selaseturs Íslands í samstarfi við Hafrannsóknastofnun og Hólaskóla aflað mikilvægra líffræðilegra og atferlisupplýsinga um selina sjálfra sem og áhrif ferðaþjónustu á hegðun selanna.

Selasetrið opnaði ferðaskrifstofuna Seal Travel í fjáröflunarskyni til að styðja við rannsóknir, selasafnið og ferðaþjónustuna í Húnaþingi vestra. Seal travel ferðaskrifstofa

Skrifstofur rannsóknadeildar og framkvæmdastjóra eru á 3. hæð Höfðabrautar 6 á Hvammstanga.